Heilræði

Ungum er það allra best,
að óttast Guð, sinn herra,
þeim mun viskan veitast mest,
og virðing aldrei þverra.

Hafðu hvorki háð né spott,
hugsa um ræðu mína,
elska Guð og gjörðu gott,
geym vel æru þína.

Foreldrum þínum þéna´ af dyggð,
það má gæfu veita,
varast þeim að veita styggð,
viljir þú gott barn heita.

Hugsa um það helst og fremst,
sem heiðurinn má næra.
Aldrei sá til æru kemst,
sem ekkert gott vill læra.

Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum.
Hinn er ei nema hálfur maður,
sem hafnar siðum góðum.

Oft er sá í orðum nýtur,
sem iðkar menntun kæra,
en þursinn heimskur þegja hlýtur,
sem þrjóskast við að læra.

Vertu dyggur, trúr og tryggur,
tungu geymdu þína,
við engan styggur né í orðum hryggur,
athuga ræðu mína.

Lítillátur, ljúfur og kátur,
leik þér ei úr máta.
Varast spjátur, hæðni, hlátur;
heimskir menn sig státa.

Víst ávallt þeim vana halt:
vinna, lesa, iðja,
umfram allt þó ætíð skalt
elska guð og biðja.

 

Varhygð

Auðtrúa þú aldrei sért,
ekki að tala um hug þinn þvert;
það má kalla hyggins hátt,
að heyra margt, en skrafa fátt.
Tak þitt æ í tíma ráð,
tókst þó ei sé lundin bráð;
vin þinn skaltu velja þér,
sem vitur og þar með tryggur er.

Verkefni:

Heilræðavísur

1. Hvað er ungum allra best?
2. Hvað mun þeim veitast sem óttast Guð, sinn herra?
3. Hvað segir Hallgrímur um háð og spott?
4. Hvernig á maður að koma fram við foreldra sína?
5. Hvað verður um þá sem ekkert gott vilja læra?
6. Hver verður bara hálfur maður?
7. Hver hlýtur að þegja?
8. Hvað á Hallgrímur við þegar hann segir okkur að ,,geyma tunguna”?
9. Hvað gera heimskir menn?
10. Hvaða venju eigum við að halda?

Varhygð

1. Hvað merkir ,,tala um hug (sinn) þvert?
2. Hvað er hyggins háttur?
3. Hvernig vini á maður að velja sér?

 

Ef þú ættir að veita börnum eitt heilræði, hvað myndi það vera?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband